Sjóðfélagalýðræði aftur til umræðu
Í ljósi umræðu um óhæði stjórna lífeyrissjóða er rétt að árétta að stjórn Lífsverks er eingöngu skipuð sjóðfélögum, sem kosnir eru af sjóðfélögum sjálfum í rafrænum kosningum.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, upplýsti um það á fundi fjármálastöðugleikanefndar í morgun (23.9.2020) að Fjármálaeftirlit Seðlabanka væri með til skoðunar hvernig staðið var að ákvarðanatöku í stjórnum lífeyrissjóða um þátttöku í hlutafjárútboði Icelandair. Sagði Ásgeir að eðlilegt væri að stjórnir lífeyrissjóða ákvarði fjárfestingarstefnu en þegar kæmi að einstökum fjárfestingakostum væri hætta á því að aðrir hagsmunir en hagsmunir sjóðfélaga ráði för.
Ásgeir sagði að tilefni væri til að skoða allt kerfið upp á nýtt, þ.e. að stjórnir lífeyrissjóða væru nú skipaðar af hagsmunaaðilum sem tækju ákvarðanir um fjárfestingar, sem að hans áliti ættu að vera teknar annars staðar.
Rétt er að árétta í þessu sambandi að stjórn Lífsverks er eingöngu skipuð sjóðfélögum, sem kosnir eru af sjóðfélögum sjálfum í rafrænum kosningum. Með þessu er tryggt að stjórnarmenn séu sjálfstæðir í sínum störfum eins og lög gera ráð fyrir. Ákvarðanir stjórnar eru teknar í umboði sjóðfélaga sjálfra, með hagsmuni þeirra einna í huga.
Í Morgunblaðinu 27. júní 2019 birtist grein um þetta efni eftir Jón L. Árnason, framkvæmdastjóra Lífsverks, sem ber yfirskriftina „Fé án hirðis eða sjóðfélaglýðræði?“ Greinina má finna hér fyrir neðan:
Fé án hirðis eða sjóðfélagalýðræði?
Eftir Jón L. Árnason
"Talsverð umræða hefur skapast undanfarið vegna átaka í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, en í þeim átökum kristallast að margra mati úrelt fyrirkomulag sem enn er við lýði, öfugt við t.d. lífeyrissjóðinn Lífsverk, þar sem allir sjóðfélagar kjósa sér sína stjórn.Landssamtök lífeyrissjóða fögnuðu því í maí að fimmtíu ár eru liðin frá því að skylduaðild að lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði var ákveðin í kjarasamningum. Margir lífeyrissjóðir eru þó mun eldri, þannig er Lífsverk t.a.m. stofnað 1954 fyrir tilstilli framsýnna manna í Verkfræðingafélagi Íslands. Þannig var því gjarnan háttað í þá tíð, að stéttarfélög eða einstaka starfsstéttir höfðu frumkvæði að því að stofna lífeyrissjóð fyrir sína félagsmenn. Þá þótti eðlilegt að fulltrúar þessara sömu stéttarfélaga sætu í stjórnum lífeyrissjóðanna og atvinnurekendur – sem töldu sig hafa hagsmuna að gæta vegna mótframlaga í sjóðina – fóru fram á slíkt hið sama.
Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Mikil hagræðing hefur átt sér stað í lífeyriskerfinu með sameiningu sjóða hinna ýmsu starfsgreina. Á undanförnum þremur áratugum hafa 82 lífeyrissjóðir verið lagðir niður eða sameinaðir öðrum og nú er svo komið að sjóðirnir eru aðeins 21 að tölu. Lífeyrissjóðir þröngt skilgreindra starfsstétta heyra nú sögunni til, með örfáum undantekningum.
Engu að síður eimir eftir af þessari gömlu skiptingu valdsins milli verkalýðsforkólfa og atvinnurekenda í stjórnum margra lífeyrissjóða. Eins og áður sagði hefur það kristallast með skýrum hætti í umræðunni um stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, þar sem formaður stéttarfélagsins telur sig geta sagt tilteknum stjórnarmönnum fyrir verkum, sem vissulega eru tilnefndir af þessu sama stéttarfélagi. Að mínum dómi er það fyrirkomulag úr sér gengið að skipað sé í stjórn lífeyrissjóða með tilnefningum stéttarfélaga og atvinnurekenda. Sögulegar ástæður eru að baki þessu fyrirkomulagi, eins og rakið er hér að framan, en þetta er tímaskekkja í nútímasamfélagi.
Nú er aldarfjórðungur síðan Pétur H. Blöndal, fyrrverandi alþingismaður, skrifaði fræga grein í Morgunblaðið sem hann nefndi „Fé án hirðis“. Þar varaði hann við því að miklir fjármunir í þjóðfélaginu væru án umhyggjusams eiganda, hirðis. Ríkissjóður, ýmsir opinberir sjóðir og lífeyrissjóðir væru dæmi um fé án hirðis. „Lífeyrissjóðirnir eru dæmi um mikla uppsöfnun fjár. Þetta fé er í hættu nema eigandi, þ.e. sjóðfélaginn, líti til með því. Til þess þarf hann vitaskuld að vita af þessari eign sinni og hann þarf að hafa tækifæri til þess að líta til með henni. Á því er mikill misbrestur.“
Ég tel að fyrirmynd góðra stjórnarhátta hjá lífeyrissjóði hljóti að vera að finna hjá Lífsverki, þar sem allir sjóðfélagar hafa jafnan kosningarétt og kjósa sjálfir fimm manna stjórn úr sínum röðum með rafrænum kosningum. Í síðustu kosningum til stjórnarkjörs greiddu um 19% virkra sjóðfélaga atkvæði. Með rafrænum kosningum fæst mun almennari þátttaka sjóðfélaga en ef kosið yrði á aðalfundi og góð reynsla er af þessu fyrirkomulagi. Þá er það einnig mikilvægt að hvert atkvæði vegi jafnt, þ.e. að atkvæði þeirra sem ungir eru og eiga eftir að greiða til sjóðsins um langa hríð hafi sömu þýðingu og þeirra eldri, enda hagsmunir þeirra yngri ekki síðri um að vel takist til með stjórn sjóðsins til framtíðar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Lífsverks lífeyrissjóðs.