Breyting á stjórn og samþykktum
Aðalfundur Lífsverks var haldinn 19. apríl sl. og var vel sóttur af sjóðfélögum.
Formaður stjórnar, Valur Hreggviðsson, flutti skýrslu stjórnar. Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri, fór yfir ársreikning sjóðsins 2015 og fjárfestingarstefnu.
Bjarni Guðmundsson, tryggingastærðfræðingur, fór yfir tryggingafræðilega stöðu sjóðsins. Þá kynnti Elísabet Árnadóttir, í kjörnefnd sjóðsins, niðurstöðu rafræns stjórnarkjörs en kosið var um eitt sæti í aðalstjórn.
Í stjórn sjóðsins var kjörinn Björn Ágúst Björnsson. Atkvæði greiddu 352, eða um 13% virkra sjóðfélaga.
Ásbjörg Kristinsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu og voru henni þökkuð vel unnin störf.
Í varastjórn var kjörinn Sverrir Bollason.
Endurskoðunarnefnd er óbreytt frá fyrra ári en hana skipa Helena Sigurðardóttir, formaður, Björn Ágúst Björnsson og Sigurður Norðdahl.
Fyrir fundinum lágu tvær tillögur um samþykktarbreytingar, annars vegar tillaga frá sjóðfélaga um styttri skipunartíma stjórnar og margfeldiskosningu og hins vegar tillaga stjórnar um rýmkun á inngönguskilyrðum í sjóðinn.
Tillaga stjórnar var samþykkt, þannig að nú geta háskólamenntaðir sérfræðingar, sem lokið hafa grunnnámi frá viðurkenndum háskóla, orðið sjóðfélagar. Eftir sem áður geta allir greitt til séreignarleiða sjóðsins.
Ný stjórn hefur skipt með sér verkum og verður Þráinn Valur Hreggviðsson áfram stjórnarformaður.
Brynja Baldursdóttir verður varaformaður og meðstjórnendur Björn Ágúst Björnsson, Helena Sigurðardóttir og
Sigþór Sigurðsson.