Nýjar réttindatöflur og hækkun lágmarksiðgjalds
Frá 1. janúar taka gildi nýjar réttindatöflur, sem kynntar voru á aðalfundi sjóðsins í apríl sl. Er það í samræmi við grein 6.2 í samþykktum, sem kveður á um það að ef mismunur á verðmæti iðgjalda og framtíðarskuldbindinga reiknist meira en 3% af framtíðarskuldbindingum eða minna en -1% skuli reikna nýjar réttindatöflur fyrir sjóðinn til að jafna þennan mun. Skulu nýjar töflur kynntar á aðalfundi sjóðsins og taka gildi frá og með næstu áramótum þaðan í frá.
Þá gerði stjórn sjóðsins breytingar á gr. 4.1 í samþykktum sjóðsins og hafa þær breytingar nú verið staðfestar af fjármála- og efnahagsráðuneyti. Annars vegar hækkar lágmarksiðjald úr 12% í 15,5% í samræmi við breytingar á lögum 129/1997 sem tóku gildi um áramót og hins vegar miðast lágmarkstryggingavernd við að innborgun hefjist við 20 ára aldur í stað 25 ára í samræmi við breytingar á reglugerð 391/1998, þar sem mörk viðmiðunaraldurs voru lækkuð. Þessi breyting verður borin undir sjóðfélaga á næsta aðalfundi sjóðsins en þá munu verða kynntar nýjar réttindatöflur til framtíðar með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa á reikniverki tryggingafræðilegrar stöðu lífeyrissjóða.
Samþykktir sjóðsins og réttindatöflur má sjá hér
Nánari upplýsingar um lagabreytinguna má finna á vef Alþingis og á vef Tryggingarstofnunnar