Góð ávöxtun á fyrri hluta ársins
Hrein eign Lífsverks 30.júní 2021 nam 136 milljörðum króna.
Ávöxtun Lífsverks undanfarin tvö ár var afar góð og sömu sögu má segja um fyrri hluta ársins 2021. Nafnávöxtun í samtryggingardeild var 8,4% og hrein raunávöxtun 5,6%. Hrein eign sjóðsins í heild til greiðslu lífeyris í lok júní 2021 var 136.142 milljónir kr. og hækkaði um 13.107 milljónir kr. frá byrjun árs, sem er 10,7% aukning.
Séreignarleiðir skiluðu einnig góðri ávöxtun. Nafnávöxtun Lífsverks 1, sem er blönduð leið skuldabréfa og hlutabréfa, var 13,7% á fyrri hluta ársins 2021 og raunávöxtun 11,0% . Nafnávöxtun Lífsverks 2, sem leggur meiri áherslu á innlend skuldabréf, var 8,7% og raunávöxtun 6,1%. Lífsverk 3, sem leggur áherslu á innlán og örugg skuldabréf, skilaði 1,5% nafnávöxtun en raunávöxtun tímabilsins var neikvæð um 1,0%, sem skýrist af lágu vaxtastigi.
Fjárfestingartekjur sjóðsins í heild á tímabilinu námu 10.622 milljónum kr. Greidd iðgjöld námu 3.512 milljónum kr. í samanburði við 3.108 milljónir kr. á sama tímabili 2020, sem er 13,0% hækkun. Lífeyrisgreiðslur námu 877 milljónum kr. í samanburði við 742 milljónir kr. á sama tímabili 2020, sem er 18,2% hækkun. Lífeyrisbyrði sem hlutfall af iðgjöldum er 31,9% í samtryggingardeild. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður samtryggingardeildar í hlutfalli af eignum er 0,12% og fjárfestingargjöld í hlutfalli af eignum er 0,02%.
Sjóðir Lífsverks hafa vaxið hratt á undanförnum árum. Þann 30. júní 2016 nam hrein eign Lífsverks til greiðslu lífeyris 68,8 milljörðum króna. Það lætur því nærri að eignir sjóðsins hafi tvöfaldast á sl. 5 árum.