Breytingar á lánareglum
Frá 1. september verður sú breyting á lánareglum Lífsverks að hámarksveðhlutfall sjóðfélagalána verður 75% af gildandi fasteignamati viðkomandi fasteignar, eða söluvirði samkvæmt nýlegum kaupsamningi, en hámarksveðhlutfall miðast ekki við metið markaðsvirði eins og verið hefur. Við veðflutning og þegar veðleyfi er veitt gildir sama regla. Þá mun sjóðurinn ekki lána til fasteignakaupa í atvinnuskyni, svo sem til útleigu.
Engin breyting verður á vaxtakjörum sjóðfélagalána. Vextir verðtryggðra grunnlána sjóðsins eru áfram 3,5% og vextir óverðtryggðra grunnlána, sem ákvarðaðir eru til 6 mánaða í senn, eru 5,95%. Hámarksfjárhæð grunnlána verður áfram 45 milljónir kr. og sjóðfélögum gefst einnig kostur á viðbótarláni uppá allt að 20 milljónir kr. með 0,6% fastvaxtaálagi á vexti grunnlána. Sjóðfélagar geta tekið fleiri en eitt lán hjá sjóðnum, að því gefnu að heildarfjárhæð lántöku fari ekki umfram þessi mörk.
Skilyrði til lántöku eru að hafa greitt iðgjöld til samtryggingar- eða séreignardeildar sjóðsins í 4 mánuði samtals. Við lántöku þarf sjóðfélagi að vera í skilum með iðgjöld, eða vera lífeyrisþegi.