Ánægja með Lífsverk eykst
Lífsverk lætur reglulega gera könnun meðal sjóðfélaga um þjónustu sjóðsins og annað sem kann að skipta sjóðfélaga máli þegar kemur að samskiptum við sjóðinn. Í könnun sem Gallup framkvæmdi í lok síðasta árs kemur fram að ánægja með sjóðinn fer vaxandi.
Alls svöruðu 658 sjóðfélagar könnuninni og var þátttökuhlutfall 36,6%. Helstu niðurstöður eru þessar í samanburði við fyrri könnun sem gerð var 2019:
- Ímynd sjóðsins eykst marktækt milli mælinga og eru tæplega 65% jákvæðir gagnvart sjóðnum. Yngsti aldurshópurinn er jákvæðastur en þó er marktæk hækkun á meðal þeirra sem eldri eru.
- Viðmót starfsmanna hækkar milli mælinga og er vel yfir meðaltali í samanburðargrunni Gallup.
- Marktæk breyting er á heildaránægju.
- Það sem skiptir sjóðfélaga mestu máli við val á lífeyrissjóði eru tryggingafræðileg staða og réttindi sjóðfélaga. Minnstu máli skiptir stærð sjóðsins og tenging við fagstétt.
- Mest hækkun á ánægju milli kannana snýr að samfélagslegri ábyrgð sjóðsins.
- Flestir telja að Lífsverk standi sig betur en aðrir hvað varðar sjóðfélagalýðræði. Sá þáttur sem hækkar hins vegar mest milli mælinga er „ávöxtun eignasafnsins síðustu ár“.
- Þekking á sjóðnum er meiri hjá þeim sem eldri eru og mest hjá þeim sem eru viðskiptafræðingar.
- Ánægja með ávöxtun sjóðsins er að aukast og hækkar meðaltalið marktækt milli kannana.
- Fleiri en áður telja að Lífsverk ávaxti fjármuni sjóðfélaga betur en sambærilegir lífeyrissjóðir.
Sjóðfélögum er þökkuð þátttaka í könnuninni. Lífsverk mun nýta niðurstöður hennar til að bæta enn frekar þjónustu við sjóðfélaga. Könnunina í heild sinni má sjá á vef sjóðfélaga undir „Upplýsingar“. Innskráning er hér: Sjóðfélagavefur Lífsverks