Áhættustefna

Áhættustefna sjóðsins var sett með hliðsjón af leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins um áhættustýringu samtryggingardeilda lífeyrissjóða.

Áhætta er skilgreind sem hætta á atburði sem dregur úr líkunum á því að lífeyrissjóðurinn nái markmiðum sínum, en meginmarkmið lífeyrissjóðsins er að greiða lífeyri samkvæmt samþykktum. Áhætta er því öll þau atvik er geta marktækt haft áhrif á getu lífeyrissjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar, þ.e. að tryggingafræðileg staða verði neikvæð til skemmri eða lengri tíma.

Áhættu sjóðsins er skipt í fjárhagslega áhættu, lífeyristryggingaráhættu, lausafjáráhættu, mótaðilaáhættu og rekstraráhættu.

Tilgangurinn með áhættustefnu sjóðsins er að skilgreina skipulag, umsjón og ábyrgð er varðar framkvæmd áhættustýringar, að skilgreina þá áhættuþætti sem sjóðurinn vill hafa eftirlit með og jafnframt að skilgreina hvernig og hvenær fylgst verður með þessum áhættuþáttum. Þá leggur sjóðurinn mat á mikilvægi hvers áhættuþáttar. Árlega er áhættustefna sjóðsins endurmetin samhliða vinnu við fjárfestingarstefnu komandi árs og tekur fjárfestingarstefnan á mörgum skilgreindum áhættum í áhættustefnunni.

Fjárhagsleg áhætta

Ársfjórðungslega gerir sjóðurinn ítarlega skýrslu um fjárhagslega áhættu sjóðsins en þar er farið ofan í þá áhættuþætti sem taldir eru upp hér að neðan.

Ýmsar næmnigreiningar eru gerðar og áhrif þeirra á eignasafnið metin. Sem dæmi er vaxtaáhætta verðtryggðra og óverðtryggðra vaxta skoðuð. Þar er mælt hvaða áhrif 1% breyting á vöxtum hefur á markaðsvirði eignasafnsins út frá mismunandi líftíma. Þá er verðbreyting á stærstu myntum sjóðsins skoðaðar sem og EUR/USD krossinn og hvaða áhrif verðbólga hefur á tryggingafræðilega stöðu.

Einnig eru settar fram sviðsmyndir þar sem áhrif margvíslegra þátta á tryggingafræðilega stöðu sjóðsins eru metin. Má þar nefna verðbólguskot, áhrif tiltekinna verðbreytinga á erlendum og innlendum hlutabréfamörkuðum sem og sveiflur á gengi krónunnar. Reiknað er út ársfjórðungslegt og árlegt fé í húfi (e. VaR) miðað við 99% vissu, bæði út frá uppgjöri á kaupkröfu og markaðskröfu. VaR er notað til að meta líkur á tilteknu tapi miðað við núverandi eignasafn og söguleg gögn. Staðalfrávik er notað til að meta sveiflur eignasafna.

Lífeyristryggingaráhætta
  • Skerðingaráhætta
  • Iðgjaldaáhætta
  • Umhverfisáhætta
  • Lýðfræðileg áhætta
  • Réttindaflutningsáhætta

Lausafjáráhætta
  • Seljanleikaáhætta
  • Útstreymisáhætta

Mótaðilaáhætta
  • Útlánaáhætta
  • Samþjöppunaráhætta
  • Landsáhætta
  • Afhendingaráhætta
  • Uppgjörsáhætta

Fjárhagslegáhætta
  • Vaxta og endurfjárfestingaáhætta
  • Uppgreiðsluáhætta
  • Markaðsáhætta
  • Gjaldmiðlaáhætta
  • Ósamræmisáhætta
  • Verðbólguáhætta
  • Áhætta vegna eigna utan efnahagsreiknings

Rekstraráhætta
  • Starfsmannaáhætta
  • Áhætta vegna svika
  • Áhætta vegna upplýsingatækni
  • Orðsporsáhætta
  • Pólitísk áhætta/ lög og reglur
  • Skjalaáhætta
  • Úrskurðaráhætta lífeyris
  • Áhætta vegna útvistunar
  • Upplýsingaáhætta