Þorbjörn Sigurðsson hefur verið ráðinn áhættustjóri Lífsverks lífeyrissjóðs.
Þorbjörn hefur mikla reynslu úr heimi áhættustýringar. Síðustu sex ár hefur hann starfað hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. sem sérfræðingur í áhættustýringu. Áður vann hann í áhættustýringu Landsbankans í 8 ár við mat á útlánaáhættu og eiginfjárþörf og þar áður starfaði hann um skeið í áhættustýringu skilanefndar Landsbankans.
Þorbjörn lauk B.Sc. námi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og stundaði M.Sc. nám í fjármálaverkfræði við sama skóla ásamt því að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
Þá má einnig nefna að Þorbjörn er mikilvirkur í tónlistarlífi landans og hefur komið víða við á þeim vettvangi.
„Það er spennandi áskorun að ganga til liðs við Lífsverk lífeyrissjóð. Ég hlakka til að takast á við krefjandi verkefni sem áhættustjóri og leggja mitt lóð á vogarskálarnar," segir Þorbjörn.
Starfsfólk Lífsverks býður Þorbjörn velkominn til starfa.