Afkoma sjóðsins á árinu 2014
Samkvæmt tryggingafræðilegri athugun voru heildareignir samtryggingardeildar 0,2% umfram heildarskuldbindingar í árslok og var staða sjóðsins því jákvæð annað árið í röð.
Ávöxtun Lífsverks var góð á árinu 2014 þegar tekið er mið af áhættustigi fjárfestingarleiða sjóðsins og fjárfestingarmöguleikum. Allar leiðirnar skiluðu jákvæðri nafn- og raunávöxtun á árinu.
Nafnávöxtun samtryggingardeildar var 7,4% á árinu 2014 og nafnávöxtun fjárfestingarleiða séreignardeildar var á bilinu 2,8-4,6% .
Sjóðurinn stækkaði um 12,2% á árinu og námu heildareignir beggja deilda, samtryggingar og séreignar, um 57,7 milljörðum króna. Lífsverk er á meðal þeirra lífeyrissjóða sem hraðast hafa vaxið undanfarin ár sem skýrist m.a. af því að hlutfall lífeyris af iðgjöldum er lágt þegar horft er til annarra lífeyrissjóða. Hrein eign í árslok 2014 til greiðslu lífeyris í samtryggingardeild var 49.880 m.kr. og í séreignardeild 7.777 m.kr.
Aukning varð í fjölda virkra sjóðfélaga í samtryggingardeild í fyrsta sinn um nokkurt skeið og töluverð fjölgun varð meðal rétthafa í séreignardeild með gerð nýrra samninga um viðbótarsparnað.
Samkvæmt tryggingafræðilegri athugun voru heildareignir samtryggingardeildar 0,2% umfram heildarskuldbindingar í árslok og var staða sjóðsins því jákvæð annað árið í röð. Góð raunávöxtun bætti áfallna stöðu sjóðsins verulega. Nýjar réttindatöflur tóku gildi 1.1.2015 í samræmi við grein 6.2 í samþykktum sjóðsins. Réttindaávinningur fyrir greitt iðgjald í framtíðinni hækkaði við breytingarnar og hafði áhrif til lækkunar á tryggingafræðilegri stöðu. Ástæða er til að benda á að gott jafnvægi hefur náðst á milli áunninnar stöðu og framtíðarstöðu sjóðsins.
Lífsverk er sjóður háskólamenntaðra sérfræðinga. Hann er blandaður lífeyrissjóður sem starfrækir samtryggingardeild og þrjár leiðir í séreignardeild. Af 12% skylduframlagi í lífeyrissjóðinn fer 10% til samtryggingardeildar og 2% til séreignardeildar nema sérstaklega sé óskað eftir að allt skylduframlagið skuli fara í samtryggingardeildina.
Nafnávöxtun samtryggingardeildar var 7,4% og raunávöxtun 6,3% samanborið við 8,7% nafnávöxtun og 4,8% raunávöxtun árið 2013. Hrein raunávöxtun s.l. þrjú ár var að meðaltali 5,4% sem er töluvert yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði lífeyrissjóða sem notað er við útreikninga á tryggingafræðilegri stöðu. Smellið á töfluna hér til hliðar þar má sjá nánari upplýsingar um afkomu samtryggingardeildar.
Nafnávöxtun Lífsverks 1 var 4,5% og raunávöxtun var 3,4%. Hrein eign í árslok var 862 m.kr. og jókst um 17% á milli ára. Nafnávöxtun Lífsverks 2 var 2,8% og raunávöxtun 1,7%. Hrein eign í árslok nam 6.800 m.kr. og hækkaði um 12,5% á milli ára. Nafnávöxtun Lífsverks 3 var 4,6% og raunávöxtun 3,5%. Hrein eign í árslok var 114m.kr. og hækkaði um 65%.
Nánari upplýsingar verða veittar á aðalfundi sjóðsins sem fram fer kl. 17 þann 15. apríl n.k. að Engjateigi 9.