LÍFSVERK lífeyrissjóður
Nýtt nafn á gömlum grunni
Lífeyrissjóður verkfræðinga hefur fengið nýtt nafn, LÍFSVERK lífeyrissjóður. Tillaga um nafnabreytinguna var lögð fram af stjórn sjóðsins og samþykkt á aðalfundi í apríl síðastliðnum. Nafnið er stytting á upprunalegu nafni sjóðsins og byggir á gömlum grunni þar sem www.lifsverk.is hefur verið slóðin að heimasíðu sjóðsins um árabil. Nafnið tengir á skemmtilegan hátt ævistarfið og verkfræðingastéttina sem stofnaði sjóðinn. Lífeyrissjóðurinn var stofnaður árið 1954 og var í upphafi einungis fyrir verkfræðinga en í dag geta bæði verkfræðingar og aðrir háskólamenntaðir sérfræðingar orðið sjóðfélagar. Almennt er þó miðað við að þeir hafi lokið a.m.k. fyrstu háskólagráðu í raungreinum (BSc eða sambærilegt) eða framhaldsnámi í háskóla í öðrum greinum (MS, MA, MBA, PhD eða sambærilegt.)
LÍFSVERK lífeyrissjóður var fyrsti lífeyrissjóðurinn sem tók upp beint sjóðfélagalýðræði, sá fyrsti til að aldurstengja réttindaávinning og sá fyrsti sem stóð að rafrænu stjórnarkjöri.
Formaður stjórnar LÍFSVERKS er Þráinn Valur Hreggviðsson og framkvæmdastjóri er Auður Finnbogadóttir. Aðrir stjórnarmenn eru Helena Sigurðardóttir, Ásbjörg Kristinsdóttir, Brynja Baldursdóttir og Sigþór Sigurðsson.
Gildi LÍFSVERKS eru; Heilindi, Jákvæðni og Ábyrgð.