Fjármálalæsi á heima í skólakerfinu
Svanhildur, markaðs- og kynningarstjóri Lífsverks skrifað þessa grein sem birt var í Fréttablaðinu 20.febrúar sl.
Svanhildur, markaðs- og kynningarstjóri Lífsverks skrifað þessa grein sem birt var í Fréttablaðinu 20.febrúar sl.
Svanhildur hefur tekið þátt í verkefni Samtaka fjármálafyrirtækja sem ber heitið Fjármálavit. Þar eru starfsmenn fjármálastofnana og lífeyrissjóða að taka höndum saman og heimsækja 10.bekki landsins með stutta fjármálafræðslu, m.a. um launaseðilinn og sparnað.
Hér fyrir neðan birtist greinin í heild sinni:
Fjármálalæsi er samfélagsmál og á heima í skólakerfinu
Skattur, persónuafsláttur, lífeyrissjóður, lífeyrisréttindi. Veröldin sem blasir við er ekki alveg einföld þegar við tökum fyrstu skrefin á vinnumarkaði. Ungt fólk vill að hlutirnir séu einfaldir, skýrir og aðgengilegir til að skilja, helst með fáeinum farsímasmellum! Veruleikinn er hins vegar ögn flóknari en svo og einfaldast ekki af sjálfu sér.
Samtal um fjármálalæsi er nauðsynlegt og þarf að eiga sér stað á heimilum og á vinnustöðum. Fjármál í víðasta skilningi eru reyndar þess eðlis í umhverfi okkar allra að fræðsla um þau á heima í skólakerfinu strax á efstu stigum grunnskólans og ofar í skólakerfinu eftir atvikum. Þar vísa ég ekki síst til áhugaverðrar reynslu minnar sem þátttakanda í verkefninu Fjármálavit sem Samtök fjármálafyrirtækja standa að og Landssamtök lífeyrissjóða styðja. Útbúið var námsefni og starfsfólk fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða hefur síðan lagt verkefninu lið með því að fara í grunnskóla landsins, hitta fyrir þúsundir nemenda í tíunda bekk, ræða málin og láta þá fást við tiltekin viðfangsefni sem tengjast eigin veruleika og viðfangsefnum í daglegu lífi.
Í verkefninu Fjármálaviti höfum við tekið fyrir venjulegan launaseðil sem ungmennin fá við útborgun strax í unglingavinnunni en leggja gjarnan til hliðar án þess að spá í hvað á honum stendur. Auðvitað kemur á daginn að ungmennin vita mest lítið eða alls ekkert um til dæmis lífeyrissjóði eða stéttarfélagsgjöld sem af eru tekin og réttindi sem þau veita. Reynsla af samskiptum við nemendur í grunnskólum bendir þannig til þess að foreldrar og aðrir uppalendur sinni ekki umræðu um ýmsa nærtæka þætti fjármála. Ég velti líka fyrir mér hlut atvinnurekenda. Má ekki hugsa sér að þeir reyni að ná til yngstu starfsmanna sinna með einföldum upplýsingum um launaseðilinn um leið og ungmennin ráða sig til starfa?
Ungmennin okkar eru klár, áræðin og eldfljót að tileinka sér tækni og möguleika sem tölvur og samskiptatæki bjóða upp á. Áreitið er hins vegar lúmskt úr mörgum áttum og til að mynda er lítið mál að slá vafasöm lán í símanum sínum með fáum smellum til að freista þess að fleyta sér yfir einhvern fjármálahjalla. Slík skyndiredding getur hins vegar orðið upphaf að keðjuverkun með nýjum og enn brattari hjalla að klífa.
Reynslan af Fjármálaviti sýnir að ungt fólk er móttækilegt fyrir upplýsingum um meginatriði fjármála strax í grunnskóla. Áskorun okkar er að finna skilaboðunum form og farveg sem hæfir tíðarandanum á hverjum tíma. Í þeim efnum breytast hlutir hratt.
Í einfölduðu máli aðhyllist ungt fólk heiðarleika og gegnsæi í samfélaginu en hafnar pukri og undirmálum. Það horfir á veröldina sem heild og horfir fram hjá ýmsum „landamærum“ í stjórnmálum, viðskiptum og samskiptum sem fyrri kynslóðir eru uppteknar af. Í þeim skilningi er það frjálslyndara en eldri kynslóðir, skiptir hiklaust um skoðun eða breytir hegðun gagnvart viðteknum venjum ef því býður svo við að horfa. Það velur sér efni fjölmiðla á þeim tíma sem því hentar og hallast mun frekar að myndrænni framsetningu efnis en texta.
Ef við þurfum að útskýra iðgjald og réttindaávinnslu í lífeyrissjóði, stéttarfélagsgjald, útsvar eða persónuafslátt með teikningum og myndböndum á YouTube en ekki í löngu máli – munnlegu eða skriflegu – þá einfaldlega gerum við það!
Þörfin er fyrir hendi, viðfangsefnin eru tiltölulega skýr og aðferðafræðin er í sjálfu sér augljós. Við þurfum að vera tilbúin til að bæta kerfið okkar, breyta venjum og ræða hlutina eins og þeir eru, eins og unga kynslóðin þegar það á við.
Tökum þetta öll til okkar og gerum betur; foreldrar, skóli, atvinnurekendur, bankar og aðrar fjármálastofnanir. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn.