Breytingar á lögum um lífeyrissjóði taka gildi um áramótin
Umtalsverðar breytingar á lögum og reglum um lífeyrissjóði taka gildi um næstu áramót, m.a. hækkun lágmarksiðgjalds, lögfesting á svonefndri „tilgreindri séreign“ og breytingar á reglum um tekjutengingu lífeyrisgreiðslna við útreikning á greiðslum frá Tryggingastofnun.
Umtalsverðar breytingar á lögum og reglum um lífeyrissjóði taka gildi um næstu áramót, m.a. hækkun lágmarksiðgjalds, lögfesting á svonefndri „tilgreindri séreign“ og breytingar á reglum um tekjutengingu lífeyrisgreiðslna við útreikning á greiðslum frá Tryggingastofnun.
Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um lífeyrissjóði var upphaflega lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda í lok árs 2019 en frumvarpið sjálft dregið til baka eftir að ljóst var að frekara samráð þurfti við lífeyrissjóði og aðra hagsmunaaðila áður en svo viðamiklar breytingar á lífeyriskerfinu yrðu settar í lög. Frumvarpið var engu að síður dregið fram aftur, lítillega breytt, og varð að lögum frá Alþingi í júní sl. þrátt fyrir neikvæðar umsagnir fjölmargra aðila.
Lögfesting „tilgreindrar séreignar“ var m.a. gagnrýnd harðlega, þar sem ljóst má vera að flækjustig lífeyriskerfisins og kostnaður mun aukast töluvert við þessa breytingu. Sú breyting hefur þó orðið að lífeyrissjóðir eru ekki lengur skyldaðir til að bjóða sjóðfélögum ráðstöfun á hluta iðgjaldsins í tilgreinda séreign eins og upphaflega var ráðgert, en er heimilt að kveða á um slíka ráðstöfun í samþykktum sínum.
Lífsverk gagnrýndi einnig harðlega þá breytingu sem nú hefur verið lögfest, að séreign sem myndast hefur af lágmarksiðgjaldi komi til skerðingar á greiðslum frá Tryggingastofnun á sama hátt og lífeyrir úr samtryggingasjóðum en fram að þessu hafa útgreiðslur úr séreign ekki haft áhrif á greiðslur frá Tryggingastofnun. Eftir breytinguna verða einungis greiðslur úr þeirri séreign sem myndast hefur af viðbótarlífeyrissparnaði, sem takmarkast við 4% framlag rétthafa og 2% mótframlag launagreiðanda, undanþegnar tekjuskerðingu Tryggingastofnunar. Þessi breyting á þó ekki við um þá sem hafa hafið töku lífeyris fyrir áramót.
Helstu breytingar sem taka gildi um áramótin eru þessar:
- Lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% af launum í 15,5% - framlag launþega er óbreytt 4% en framlag atvinnurekanda hækkar í 11,5%. Þessi breyting hefur þegar verið innleidd samkvæmt flestum kjarasamningum en nú munu t.d. einyrkjar og sjálfstæðir atvinnurekendur þurfa að greiða hærra iðgjald en áður.
- Svonefnd „tilgreind séreign“ er lögfest en með henni er heimilt að leggja allt að 3,5% af skylduframlagi í tilgreinda séreign. Um hana gilda þrengri útborgunarreglur en um aðra séreign. Tilgreinda séreign auk viðbótarlífeyrissparnaðar, má nýta skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign.
- Séreign sem myndast hefur af skylduframlagi verður ekki lengur undanþegin skerðingum Tryggingastofnunar. Þetta á þó ekki við um sjóðfélaga sem þegar hafa hafið töku lífeyris. Það eru því fyrst og fremst sjóðfélagar sem hyggjast taka eftirlaun á næstu árum og nýta sér greiðslur almannatrygginga, sem standa frammi fyrir erfiðu vali: Að hefja töku lífeyris fyrir áramót og fá þá lægri mánaðarlegar greiðslur en ella; að taka út séreignina og eiga á hættu að lenda í hærra skattþrepi og greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum næstu árin, auk þess sem fjármagnstekjur koma til skerðingar greiðsla frá Tryggingastofnun; eða að sætta sig við að þær úttektir úr séreign sem síðar verða muni skerða greiðslur frá Tryggingastofnun. Reiknisdæmið er mismunandi milli einstaklinga, sem eru hvattir til að skoða sín mál. Í reiknivél á vefsíðu Tryggingastofnunar má glöggva sig á hvernig lífeyristekjur hafa áhrif til skerðinga miðað við mismunandi forsendur. https://www.tr.is/reiknivel/
Lagabreytingarnar í heild má sjá á vef Alþingis hér .
Nánari upplýsingar er að finna á vef TR hér