Bjarni Kristinn Torfason til Lífsverks
Bjarni hefur verið ráðinn áhættustjóri Lífsverks og mun hefja störf í júní.
Bjarni Kristinn Torfason hefur verið ráðinn áhættustjóri Lífsverks.
Bjarni hefur fjölbreytta reynslu úr fjármálageiranum. Síðustu þrjú ár hefur hann starfað í Áhættustýringu Íslandsbanka sem sérfræðingur í markaðsáhættu. Áður vann hann í sex ár í greiningardeild Deutsche Bank í New York við greiningu skuldabréfavafninga og vann í afleiðudeild Markaðsviðskipta Íslandsbanka og Glitnis á árunum 2004-2006. Þá tók Bjarni þátt í vinnu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið.
Bjarni er með doktorsgráðu í fjármálum og hagfræði frá Columbia Business School í New York og B.S. gráður í stærðfræði og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Þá hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.
„Ég hlakka til að hefja störf hjá Lífsverki og takast á við spennandi verkefni sem áhættustjóri, meðvitaður um það ábyrgðarhlutverk sem sjóðurinn gegnir.“
Bjarni mun hefja störf í júní. Við bjóðum hann velkominn til starfa.