Ávöxtun í fortíð og framtíð
Í Silfrinu á Rúv sunnudaginn 16. desember var viðtal við Hallgrím Óskarsson, verkfræðing, sem tók saman skýrslu um lífeyriskerfið sem út kom í maí sl. Í þættinum var ávöxtun lífeyrissjóðanna árin 2000 – 2017 borin saman. Lífsverk kom ekki vel út í þeim samanburði en rétt er að koma á framfæri nokkrum athugasemdum:
Í Silfrinu á Rúv sunnudaginn 16. desember var viðtal við Hallgrím Óskarsson, verkfræðing, sem tók saman skýrslu um lífeyriskerfið sem út kom í maí sl. Í þættinum var ávöxtun lífeyrissjóðanna árin 2000 – 2017 borin saman. Lífsverk kom ekki vel út í þeim samanburði en rétt er að koma á framfæri nokkrum athugasemdum:
- Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands kom best út í samanburði Hallgríms. Það er lokaður sjóður sem tekur við iðgjöldum frá færri en 30 sjóðfélögum og er því vart samanburðarhæfur.
- Árin sem notuð eru til samanburðar koma einstaklega illa út fyrir Lífsverk. Hrein raunávöxtun var mjög góð hjá sjóðnum í aðdraganda ársins 2000, sem er fyrsta samanburðarárið, eða 9,2% 1996, 6,69% 1997, 10,98% 1998 og 21,57% 1999. Árið 2000 var hins vegar neikvæð raunávöxtun hjá sjóðnum um 7,89%.
- Á það skal bent að á árunum fyrir efnahagshrunið 2008 var engin eiginleg eignastýring hjá sjóðnum, heldur var eignastýringu sinnt í hjáverkum af sérstöku fjárfestingarráði. Á þessu hefur orðið gjörbreyting. Nú eru tveir starfsmenn hjá sjóðnum sem eingöngu sinna eignastýringu auk þess sem regluverk um áhættustýringu hjá lífeyrissjóðum er orðið mun vandaðra en áður.
- Síðastliðin 5 ár var meðaltal hreinnar raunávöxtunar Lífsverks 5% (miðað við 31.12.2017). Á árinu 2016 náði Lífsverk hæstu raunávöxtun allra lífeyrissjóða á Íslandi.
- Þrátt fyrir þetta skal bent á að uppgjörsaðferðir lífeyrissjóðanna eru mismunandi og því gefur beinn samanburður milli sjóða ekki endilega rétta mynd af árangri sjóðanna í eignastýringu.
- Aðrir þættir en ávöxtun í fortíð skipta meira máli við val á lífeyrissjóði. Þar vegur þungt réttindaávinnsla hvers árs, hvort möguleiki sé að setja hluta iðgjalda í séreign og hvernig rekstri og stjórn sjóðsins er háttað.
- Lífsverk birtir ársskýrslur á heimasíðu sinni og þar má sjá ítarlegar upplýsingar um starfsemi sjóðsins og kennitölur, eins og sundurliðun á nafn- og raunávöxtun hvers ár fyrir hverja ávöxtunarleið, auk 5 ára og 10 ára meðaltals. Sjóðfélagar geta hvenær sem er nálgast yfirlit um réttindastöðu sína og hreyfingar iðgjalda á sjóðfélagavefnum sem er aðgengilegur frá heimasíðunni.
- Markmið Lífsverks er að stuðla að bættum stjórnarháttum og auka enn gagnsæi í upplýsingagjöf. Lífsverk vinnur eftir stefnu sjóðsins um samfélagslega ábyrgð og leitast við að taka í auknum mæli þátt í fjárfestingum í takt við hana og finna leiðir til að bæta stöðu sjóðfélaga til framtíðar. Sem dæmi um þetta má nefna að Lífsverk er eini lífeyrissjóðurinn sem býður 85% fjármögnun vegna fyrstu íbúðakaupa og nýverið gekk sjóðurinn frá samningi um forgang sjóðfélaga að íbúðum eldri borgara í Mörk.