Agni nýr í aðalstjórn Lífsverks
Niðurstöður í rafrænum kosningum um stjórnarsæti voru kynnt á aðalfundi Lífsverks í gær.
Á aðalfundi Lífsverks í gær kynnti Elísabet Árnadóttir, í kjörnefnd sjóðsins, niðurstöður í rafrænum kosningum um tvö stjórnarsæti. Margrét Arnardóttir var ein í framboði kvenna og var hún því sjálfkjörin en þeir Agni Ásgeirsson, Bergur Ebbi Benediktsson og Þorbergur Steinn Leifsson sóttust eftir stjórnarsæti karls. Leikar fóru þannig að Agni Ásgeirsson hlaut 46% atkvæða, Þorbergur 27% og Bergur Ebbi 26%. Agni er því réttkjörinn í aðalstjórn Lífsverks til næstu 3ja ára. Atkvæði greiddu alls 466 eða um 14% virkra sjóðfélaga.
Ný stjórn hefur skipt með sér verkum og eru hlutverk óbreytt, Eva Hlín Dereksdóttir er stjórnarformaður og Agnar Kofoed-Hansen varaformaður. Meðstjórnendur eru Agni Ásgeirsson, Georg Lúðvíksson og Margrét Arnardóttir.
Í endurskoðunarnefnd voru Jóhann Þór Jóhannsson og Thomas Möller endurkjörnir, auk Margrétar Arnardóttur, sem er tilnefnd af stjórn.
Halla Guðrún Jónsdóttir var endurkjörin í varastjórn og Þorbergur Steinn Leifsson, sem hefur sætaskipti við Agna Ásgeirsson. Auk þeirra eru Gnýr Guðmundsson og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir varamenn í stjórn.
Á fundinum flutti Eva Hlín Dereksdóttir skýrslu stjórnar, Jón L. Árnason, framkvæmdastjóri, fór yfir ársreikning 2022, Bjarni Guðmundsson, tryggingastærðfræðingur, fór yfir tryggingafræðilega stöðu og Guðrún Inga Ingólfsdóttir, forstöðumaður eignastýringar, fór yfir fjárfestingarstefnu. Lagðar voru til samþykktarbreytingar, sem allar voru samþykktar. Helstu breytingar snúa annars vegar að inntökuskilyrðum í sjóðinn sem nú verður opinn öllum sem hafa lokið háskólanámi eða eru í námi við viðurkenndan háskóla, og hins vegar nýjum aldursmiðuðum réttindatöflum, sem miða að því að greidd iðgjöld standi undir skuldbindingum hvers árgangs. Breytingar á samþykktum bíða nú staðfestingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Ársskýrslu sjóðsins 2022 er að finna hér: Ársskýrsla 2022